Ferill 373. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 373 . mál.


Nd.

703. Frumvarp til laga



um breytingu á búfjárræktarlögum, nr. 31 24. apríl 1973.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Við XI. kafla búfjárræktarlaga nr. 31/1973 bætist ný grein, er verði 64. gr. a, svohljóðandi:
    Sveitarstjórnum er heimilt, til að auka öryggi umferðar á þjóðvegum og að forða ágangi búfjár, að ákveða að eigendum búfjár, þ.e. sauðfjár, geita, nautgripa og hrossa, sé skylt að hafa það í vörslu allt árið, eða tiltekinn hluta ársins.
    Heimild þessi getur jafnt tekið til alls lögsagnarumdæmis viðkomandi sveitarstjórnar eða afmarkaðs hluta þess, svo sem umhverfis þéttbýli eða fjölfarna vegi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt er úr gildi felld 35. gr. laga nr. 108 29. desember 1988.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í gildandi löggjöf er ekki að finna almenna heimild til að banna lausagöngu búfjár. Í búfjárræktarlögum, nr. 31/1973, eins og þeim var breytt með lögum nr. 108/1988, er hins vegar heimild fyrir sveitarstjórnir til að takmarka lausagöngu hrossa, sbr. 38. gr. laganna. Því þykir nauðsynlegt að auka við ákvæði núgildandi búfjárræktarlaga eins og hér er lagt til.
    Í gildi eru lög nr. 44/1964, um búfjárhald í kaupstöðum og kauptúnum. Þau lög heimila sveitarstjórn í kaupstað eða kauptúni að banna með reglugerð tiltekið búfjárhald eða takmarka það. Fjölmargar sveitarstjórnir hafa notfært sér þessa heimild án þess þó að framkvæmd slíkra reglna sé alls staðar sem skyldi.
    Mikil þörf er á að lög heimili bann við búfé sem ekki er í vörslu eða takmörkun á frjálsri för þess utan þeirra svæða sem ákvörðunarréttur einstakra
kaupstaða eða kauptúna nær til. Breyting sú, sem hér er lögð til, er í samræmi við ályktun búnaðarþings 1989 um rýmri heimildir fyrir sveitarstjórnir til að takmarka lausagöngu búfjár.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Greinin gerir ráð fyrir að bætt verði í XI. kafla búfjárræktarlaga nýju almennu heimildarákvæði fyrir sveitarstjórnir til að taka ákvörðun um vörsluskyldu sauðfjár, geita, nautgripa og hrossa, í því skyni að auka umferðaröryggi á þjóðvegum og forða ágangi búfjár. Greinin kæmi í stað núgildandi 38. gr. laganna sem gildir eingöngu fyrir hross. Öll rök hníga að því að þessi heimild verði víðtækari en nú er, þannig að unnt sé m.a. að sporna við ágangi búfjár á fjölfarna þjóðvegi, í garðlönd, skógræktarsvæði eða önnur viðkvæm gróðurlendi. Þykir því nauðsyn bera til að auka við ákvæði núgildandi búfjárræktarlaga eins og hér er lagt til.

Um 2. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.